Fyrr á þessu ári fór í loftið nýr vefur fyrir Garminbúðina (www.garminbudin.is). Verkefnið var nokkuð stórt í sniðum þar sem þeir Ríkarður, framkvæmdastjóri og Ólafur, sölustjóri, vildu setja upp vefverslun fyrir flestar vörur sem þeir selja í dag. Vefsíðan sem þeir höfðu í höndunum var að birta ákveðið vöruframboð en enginn möguleiki var fyrir notendur að versla þar beint í gegn. Auk þess var vefsíðan ekki skalanleg rétt niður á öll tæki og það var eitthvað sem þeir vissu að þyrfti að laga ásamt fleiri hlutum.

Nýi vefurinn er að sjálfsögðu í WordPress og allar vörur eru í WooCommerce vefverslunarviðbótinni.

Við fengum þá tvo til að setjast aðeins niður með okkur og fara yfir ferlið við vinnuna á vefnum.

Hvaða ástæður voru fyrir því að þið vilduð uppfæra núverandi vefsíðu ykkar ?

Það voru fyrst og fremst þrjár ástæður, öryggi, vefverslun og nýtt útlit með snjallsímalausn. Við vorum komnir í vandræði með öryggismálin af því að WordPress og viðbætur síðunnar voru ekki uppfærð reglulega og vefurinn varð fyrir árásum þar sem öryggisholur voru nýttar. Það var löngu komin tími á vefverslun hjá okkur, en við höfðum dregið þá vinnu og svo langaði okkur að fríska upp á útlitið sem aðlagar sig að snjallsímum.

Var unnin einhver þarfagreining innanhúss hjá ykkur áður en verkið fór af stað ?

Já, það var unnin ítarleg þarfagreining á kröfum okkar og þörfum sem við studdumst við allt ferlið, bæði við verðkönnun og svo við vinnslu verksins.

Eftir að samningar náðust milli okkar í TRS og Garminbúðarinnar hófst vinna við nýja vefinn seint á árinu 2017. Flytja þurfti allt efni af núverandi síðu, sem var þó sem betur fer uppsett í WordPress, yfir í nýrri útgáfu af kerfinu. Stærsti þáttur þeirrar vinnu var að flytja allar vörur yfir í WooCommerce en áður höfðu þær verið settar upp sem Færslur. Verkefnið var unnið í nokkrum skrefum í heild sinni en þegar bakendi kerfisins var langt kominn var sett upp tillaga að útliti sem var svo unnið áfram í góðu samstarfi.

Þegar líða tók á vinnuna varð okkur ljóst að ákveðnar viðbætur ofan á WooCommerce-kerfið þyrfti að fá inn til að leysa ýmsa hluti sem Garminbúðin vildi að hægt væri að framkvæma á vefnum. Grípum aftur inn í viðtalið við þá félaga:

Voru einhverjar hindranir sem þið rákust á við vinnu nýju síðunnar? Ef svo er, hvernig voru þau mál leyst?

Það voru vissar lausnir sem virkuðu ekki og þurfti viðbætur eða aðrar lausnir fyrir og voru þau mál leyst farsællega. Aðallega snerist þetta um að leysa ákveðna hluti í vefverslun sem eru ekki innbyggðir í grunnkerfi WooCommerce. En hins vegar er alltaf hægt að leita í fjölmörgum viðbótum við kerfið og leysa það sem upp kemur með því að sækja viðbæturnar og setja upp. Margar viðbætur við WooCommerce kosta eitthvað aukalega en það er vel þess virði að nýta þær til að gera upplifun notenda á vefnum betri. Einnig geta ýmsar viðbætur auðveldað okkur sem sjáum um bakendann lífið töluvert.

Ykkar upplifun af því að nota WooCommerce vefverslunarkerfið ?
Við erum mjög ánægðir með WooCommerce vefverslunarkerfið, eins og áður sagði eru margar viðbætur sem hægt er að fá við það til að leysa hin ýmsu mál. Kerfið hefur í raun allt sem þarf til að halda úti verslun á netinu frá A til Ö.

Ákveðið var að tengja saman DK bókhaldskerfi Garminbúðarinnar og WooCommerce vefverslunarkerfið en það er lausn sem TRS hefur boðið upp á í nokkur ár. Spurður um helstu kosti þessarar tengingar sagði Ríkarður:

Helstu kostir þess að vera tengdur DK bókhaldskerfinu er að hafa verð og lagerstöðu tengdar við vefverslunarkerfið. Viðskiptavinur sér hvort vara sé á lager, verð eru alltaf í samræmi á milli vefs og bókhaldskerfis, sölupantanir skila sér beint í kerfið til afgreiðslu, nýjar vörur stofnast sjálfkrafa í vefverslun og svo mætti áfram telja. Við hlökkum til að þróa tengingu DK og vefverslunar enn frekar til aukinnar sjálfvirkni sem skilar sér í meiri skilvirkni.

Um miðjan apríl á þessu ári fór nýi vefurinn svo í loftið og við spurðum þá félaga hvernig viðtökurnar hafa verið síðan þá.

Sölur hafa farið vel af stað og viðtökur góðar. Vefverslunin er einföld í notkun fyrir viðskiptavini og við höfum nýtt okkur afsláttarkóða í söluátaki eða með vissum viðburðum sem er einfalt í notkun. Hægt er að greiða með öllum greiðslumiðlum. Ef vara er ekki til á lager geta viðskiptavinir engu að síður pantað vöruna á biðpöntun og við látum þá viðkomandi vita um leið og varan lendir á lager hjá okkur.

Við þökkum þeim Ríkarði og Ólafi kærlega fyrir að hafa gefið sér tíma til að fara yfir þetta verkefni með okkur og um leið þökkum við einnig fyrir samstarfið við vinnu nýju vefsíðunnar.