TRS ehf. hefur fengið vottað og staðfest að öryggisstjórnkerfi fyrirtækisins samræmist alþjóðlega ISO/IEC 27001:2013 upplýsingaöryggis- staðlinum.

Vottunin felur í sér formlega viðurkenningu á því að upplýsingaöryggi TRS sé stjórnað samkvæmt ákveðnum ferlum og fagleg vinnubrögð séu viðhöfð í hvívetna. Vottunin tryggir ennfremur stöðugar umbætur í upplýsingaöryggismálum fyrirtækisins.

Vottunin nær til stjórnkerfis upplýsingaöryggis, kerfa, hug- og vélbúnaðar, hýsingar- og rekstrarþjónustu, sem rekin er á búnaði í eigu TRS og staðsett er í skilgreindum starfsstöðvum félagsins.

Úttekt á öryggismálum TRS var og er í höndum BSI – British Standards Institution, sem tók út og rýndi vinnulag, ferla og virkni kerfa hjá TRS. BSI mun síðan að lágmarki einu sinni á ári, framkvæma úttekt og rýni á öryggisstjórnkerfinu.

Aðdragandi að vottun TRS ehf. hefur verið nokkur, en undanfarin misseri hefur verið unnið ötulega að rýni, endurskoðun og uppsetningu ferla, rýma og kerfa. Þessi vinna hefur verið unnin af starfsmönnum TRS ásamt ráðgjöfum.

Með ISO 27001 vottun er TRS að tryggja sess sinn á meðal helstu upplýsingatækni fyrirtækja landsins. Viðskiptavinir sem nýta sér þjónustu TRS, skapa sér því sérstöðu hvað varðar öryggi sinna gagna, kerfis- og skýjaþjónustu.

Hýsingarsalur TRS er mjög tæknilega fullkominn og uppfyllir ströngustu öryggisstaðla og kröfur um uppitíma. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga hýsa gögn sín hjá TRS, hvort sem um er að ræða miðlæg kerfi, vefsíður eða skjöl af margvíslegu tagi. TRS rekur jafnframt umfangsmikla kerfis- og skýjaþjónustu sem m.a. samanstendur af því að þjónusta aðila í upplýsinga- og tæknimálum í víðu samhengi.