Nýlega fóru þeir Birgir Örn Harðarson og Sverrir Daði Þórarinsson, tæknimenn hjá TRS, í FSU til að heimsækja Jóhann Snorra Bjarnason kennara og  nemendur hans í áfanganum Smáspennuvirki. Í þessum áfanga er meðal annars fjallað um ljósleiðara en hann sitja nemendur á fjórðu önn í grunndeild rafiðna. Fyrir heimsóknina höfðu nemendur lært um hvernig ljósleiðari virkar, eiginleika, meðferð og fleira sem tengist þessari tækni sem gegnir sífellt mikilvægara hlutverki í innviðum samfélagsins.   

Þeir Birgir Örn og Sverrir Daði vinna hjá TRS við lagningu og viðhaldi á ljósleiðurum og ljósleiðarakerfum. Þeir nota fræðina dagsdaglega sem nemendur í smáspennuvirkjum eru að læra um. Það var því upplagt að fá þá til að sýna nemendum tækin sem eru notuð og hvernig búnaðurinn virkar. Nemendurnir fengu að handleika búnaðinn og prófa að tengja ljósleiðara og tókst öllum að klára sína tengingu. Þeir voru mjög áhugasamir og sýndu verkefninu mikinn áhuga. Ánægjan með heimsóknina var ekki minni hjá tæknimönnum TRS enda er slík heimsókn gott dæmi um samstarf skóla og atvinnulífs þar sem skólinn kennir fræðina og tæknimennirnir sýna hvernig hún nýtist síðan í starfi.

Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í heimsókninni.