Nýlega leit Windows 11 dagsins ljós en stýrikerfið verður arftaki Windows 10 sem kom út fyrir sex árum síðan. Meðal nýjunga í Windows 11 má nefna að start-hnappurinn og verkstikan (e. taskbar) sitja nú fyrir miðju skjásins og fleiri möguleikar eru í boði fyrir uppröðun á gluggum (fyrir forrit sem styðja slíkt). Útlitið hefur fengið yfirhalningu og er ferskara en þeir sem þekkja Windows 10 ættu samt að eiga auðvelt með að rata í Windows 11. Power Automate er innbyggt í Windows 11 en forritið gerir notendum kleift að búa til ferla (e. flows) með lágmarks forritunarkunnáttu. Sem dæmi væri hægt að búa til feril sem vistar skilaboð sjálfkrafa í OneNote, sendir tilkynningu þegar ný skjöl birtast í SharePoint o.fl. Framundan er síðan uppfærsla á versluninni (Microsoft Store) sem mun opna fyrir möguleika á að keyra Android-öpp á tölvunum. Auk þessa hefur öryggi stýrikerfisins verið beturumbætt og uppfært frá því sem menn þekkja úr Windows 10.

Windows 11 mun koma uppsett á öllum nýjum pc-tölvum innan tíðar en tölvur sem keyra Windows 10 geta sótt nýja stýrikerfið sem uppfærslu. Uppfærslan rúllar út á tölvurnar í hollum og hafa fyrstu hóparnir þegar fengið tilkynningu um að uppfærslan sé orðin aðgengileg. Aðrir munu fá slíka tilkynningu á næstu vikum og mánuðum. Það er rétt að benda á að eldri tölvur gætu lent í vandræðum með að keyra Windows 11 og því rétt að athuga fyrst hvort tölvan ráði við uppfærsluna áður en haldið er af stað.

Getur tölvan mín keyrt Windows 11?

Ef þú ert með nýlega pc-vél þá eru allar líkur á að hún geti keyrt Windows 11. Helstu lámarkskröfur fyrir Windows 11 eru:

1 GHz örgjörvi eða hraðari með minnst tveimur kjörnum

4 GB vinnsluminni

64 GB laust pláss á harða diskinum og meira fyrir uppfærslur í framtíðinni

UEFI og Secure boot

TPM (Trusted Platform Module) v2.0

High definition skjár sem er að lámarki 9 tommur horn í horn

Netsamband

Þú getur athugað hvort tölvan þín uppfyllir kröfurnar með því að opna PC Health Check-appið sem er innbyggt í Windows 10 (smelltu á stækkunarglerið eða leitarreitinn hjá start-hnappnum og skrifaðu PC Health). Appið skannar tölvuna og segir þá til um hvort lámarkskröfum er uppfyllt og tölvan geti keyrt Windows 11. Athugaðu samt að það gætu verið öpp og forrit uppsett á tölvunni þinni frá þriðja aðila sem virka illa eða alls ekki á Windows 11. Þessi forrit gætu þurft uppfærslu til virka. Eins ef þú ert með eldri tölvu má vera að hún sé ekki með TPM 2.0 sem er skilyrði fyrir Windows 11. TPM er búnaður sem er hannaður til að auka öryggi tölvunnar og gerir þjónustum á borð við BitLocker og Windows Hello kleift að keyra og sannreyna að stýrikerfið á tölvunni þinni sé eins og það á að vera.

Ef þú ert í vafa, heyrðu þá í sérfræðingum okkar áður en þú uppfærir tölvuna. Stjórnendur fyrirtækja og stofnananna eru einnig hvattir til að leita ráða hjá sérfræðingum áður en reynt er að uppfæra útstöðvar til að forðast ófyrirséð vandamál. Windows 10 verður stutt til 2025 svo það er enn nægur tími til gera ráðstafanir áður en Windows 10 verður orðið úrelt. Helstu rökin fyrir að uppfæra í Windows 11 eru öryggið á tölvunni og því er ekki úr vegi að fara að huga að uppfærslu eða í það minnsta kanna hvort vélbúnaðurinn ráði við það.

TRS er þjónustufyrirtæki sem hefur áratuga reynslu af rekstri tölvukerfa en við bjóðum upp á persónulega þjónustu sem er sérsniðin að þínum þörfum.
 
Öryggi er okkur hjartans mál en við bjóðum uppá ýmsar lausnir sem koma öryggismálum þínum á næsta stig. Skoðaðu öryggislausnir okkar hér.